Saturday, September 24, 2005

Móðir allra Markaða


Já það er ekki laust við að systurnar hafi sett mark sitt á Guðnýju því hún er þessa dagana alveg óð í markaði. Við fórum í dag á risa markað í Forum sem er svona Laugardagshöll, bara stærri, básar vegg í vegg. Kaupsamningar voru handsalaðir og ómetanlegir munir skiptu um eigendur. Hér er mynd af markaðnum mikla.

Síðan komum við hjúin á til Íslands á miðvikudaginn og verðum fram yfir helgi. Hlökkum til að hitta alla.

Monday, September 19, 2005

Vær'så god, 240!!!!

Já, á laugardaginn 17. september komu systur Guðnýjar, þær Svanhildur, Herdís og Valý í heimsókn til okkar. Það er óhætt að segja að það sé búið að vera mjög gaman hjá okkur að hafa þær. Sannreynt hefur verið að íbúðin okkar, þó lítil sé, rúmar fimm manns í svefnplássi. Herdís og bumbubúinn sofa í rúminu okkar og Svanhildur og Valý skiptast á að vera uppí hjá henni eða á beddanum sem við fengum lánaðann hjá Gulla og Laufeyju. Við Guðný sofum síðan í okkar forláta svefnsófa í stofunni.

Já systurnar voru vart lentar fyrr en Guðný hélt af stað með þær á markaði sem hún var búin að komast á snoður um. Á laugardaginn var farið á tvo markaði niðrí bæ og gerðu systurnar nokkur ágætis kaup auk þess að splæsa á okkur rosa flottu tekk-borði sem hreinlega var ekki hægt að láta "ókeypt". Við borðuðum á kaffihúsinu Zyrop áður en við héldum heim og "hugguðum" okkur og fórum snemma að sofa.

Sunnudagurinn var tekinn snemma og eftir síðbúinn árbít á kaffihúsi hér í grenndinni var haldið í Det Blå Pakhus sem er gríðarstór innimarkaður hér á Amager. Þar bar margt fyrir augu systranna og fleiri góð kaup voru gerð en ég held ég ég eftirláti Guðnýju að fara nánar í saumana á þeim. Eftir að hafa baðað sig í dýrðinni sem er Illum Bolighus skunduðu systurnar í Tívolí þar sem ég beið með Gulla og Laufeyju og Eika og Hrund sem eru í heimsókn hjá þeim. Þegar hér var að komið höfðu þær náð í mannafla í formi vinkvenna Svanhildar, Heiðu og Möggu. Eftir að hafa gírað mig upp í tækjunum með Gulla og co. var ég í stuði og vildi fá sem flestar systurnar með mér í Dæmonen rússibanann og Det Gyldne Tårn fallturninn. Herdís gat ekki farið í nein tæki en lét þess getið að ef hún væri ekki með barni hefði sko ekki staðið á henni, Valý þurfti litla hvatningu og skellti sér í tækin með bros á vör, þó smá efasemdir hafi læðst að henni á leiðinni upp í Gyllta Turninum en þær hurfu í hlátrasköllum á niðurleiðinni. Guðný var búin að fara svo eftirminnilega í Dæmoninn og búinn með sinn skammt af þyngdarlögmálstilraunum á Rimini og ákvað að sitja hjá. En það verður sennilega aldrei komist til botns í því hvaða vírum sló saman í höfði Svanhildar sem urðu til þess að hún lét mig tala sig uppí, ekki bara Dæmonen, heldur einnig hina 60 metra háu martröð lofthræðsluþolenda: Det Gyldne Tårn. Um leið og sætin fóru af stað upp fór Svanhildur að viðra efasemdir um ágæti sæta og öryggisbúnaðar og er sætin stöðvuðust í 60 metra hæð var nú ákveðið að hafa augun bara lokuð. Á niðurleiðinni var ekki hægt að greina neitt frá Svanhildi þar sem ópin frá Möggu vinkonu hennar yfirgnæfðu allt og alla. En hún sigraði þetta og mega Svanhildur og Magga bara vera montnar því það sáust fílefldir karlmenn snúa við í röðinni og hlaupa burt með tárin í augunum bara af því að horfa á turninn.

Eftir að hafa snætt ítalskt í Tívolí hittum við Sören og Bettine vinafólk Svanhildar og Gests og fórum með þeim á Oscar sem er rosa flottur og skemmtilegur bar. Þar sátum við frameftir kvöldi og spjölluðum. Valý og Svanhildur létu þjónana vinna fyrir kaupinu sínu með Mojito rannsóknum sínum. Sören og Bettine voru aldeilis frábær félagsskapur og virkilega gaman að spjalla við þau. Um miðnætti var haldið í strætó og þreyttar en ánægðar héldu systurnar inní draumalandið með von í hjarta um gott veður og góð kaup á þeim tíma sem þeir eiga eftir hér í Kóngsins Köbenhavn.

Framhald síðar...........
og myndir innan skamms

Friday, September 16, 2005

Undirbúningur hafinn


Eins og sést á þessari mynd er undirbúningur fyrir komu systranna, eða Hurricane Grænahlíð eins og ég kýs að kalla það, í fulllum gangi.

Einnig eru komnar nýjar myndir á myndasíðurnar, albúm: Pimps n Hoes á myndasíðu 1 og Partý hjá Önnu og Ellu á myndasíðu 2.

Sunday, September 04, 2005

Myndir Myndir Myndir!!!

Jæja þá eru myndirnar komnar á netið og hægt er að nálgast þær hér og hér

Magnað magnað, Guðbjörg systir kom í gær og við fórum á indverskan veitingastað hérna rétt hjá okkur og reyndist maturinn hreint afbragð og síðan fórum við á Mexibar og fengum okkur nokkra kokkteila áður en haldið var heim. Hún fór síðan heim í morgun.

Brillí brill hilsen allir saman.

Sorry Himmi ég hef engar röntgenmyndir en ég get sýnt þér hvernig ökklinn leit út daginn eftir:

Out for the season!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?