Sunday, March 19, 2006

Af helginni, Patrick Swayze og hvað má og má ekki sleikja

Jæja nú er aldeilis kominn tími á að gamli jarpur bloggi lítillega.

Það er ekki laust við að örlítil þreyta sitji í manni eftir að hafa farið á æfingu á föstudaginn, spilað leiki í gær sem vannst með 30 stigum og annan kl. 09.00 á sunnudagsmorgun, en sá vannst með þremur stigum og bjargaði okkur sjálfsagt frá falli. Vorum að spila á móti þvílíkum wannabe ganster pimp ass players að svarti maðurinn í liðinu þeirra var mesti redneckinn af þeim. Þvílíkum street ballerum hef ég aldrei spilað á móti, þetta var bandaríska aðferðin, "look good first, win second", þeir voru reyndar í fantaformi þannig að við tókum austur-evrópska iðnaðar taktík á þá, spiluðum hægt, tókum fast á þeim og kenndum þeim að spila árangursríkan körfubolta enda unnum við með hinni virðulegu stigatölu 46-43, ekki ónýtt það! Verða að minnast líka á það að ég náði mínu career-besta blocki þar sem ég varði skot frá gaur undir minni körfu og bolti lenti fyrst í gólfinu á hinum vallarhelmingnum, Hrikalegt! En núna er körfutímabilinu lokið og það var mjög gaman, ég spilaði mitt besta tímabil á ævinni en nú byrjar maður í fótboltanum sem verður fínt anda er ég farinn að sakna þess að mega sparka í fólk en það er víst fremur illa séð í körfunni.

Á föstudagskvöldið þegar ég kom heim af æfingu urðu tímamót í mínu lífi þar sem Guðnýju tókst að véla mig í að horfa á Dirty Dancing, sem ég gaf henni í afmælisgjöf. Frá því að við kynntumst hefur Guðný reglulega viðrað hneykslun sína á að ég hafi aldrei séð þá eðla mynd. Eftir að hafa skotist undan í rúm 3 ár var komið að skuldadögum og nú skyldi ég öðlast nýja sýn á kvikmyndaheiminn og horfa á myndina sem að Guðnýjar mati setti ný viðmið fyrir kvikmyndagerðarmenn um allan heim. Já það er engin furða að Jennifer Gray og Patrick Swayze hafi þurft að berja af sér tilboðin í kjölfar þessarar myndar og séu af mörgum talin tveir fremstu leikara heims á sviði óhreinindadans mynda sem gerast á sumarafdrepum upp til sveita í Norður-Ameríku, það er enginn vafi. Að fá að upplifa snilldarleik þeirra var eins og að Guð liti framan í mann og segði "Þú ert mín allrabesta og dásamlegasta sköpun". Já það er ekki orðum aukið að "Nobody puts Baby in the corner!"

Eftir að hafa dreymt alla nóttina um að Patrick Swayze hæfi mig á loft í vatnsgusum og héldi mér eins og glitrandi kyndli vöknuðum við á laugardaginn og tókum til áður en ég fór og spilaði fyrri leik helgarinnar. Eftir leikinn fórum við til Gulla og Laufeyjar og borðuðum dýrindis hvítlaukssmjörsfylltar kjúklingabringur með tzatziki og bökuðum og öllu tilheyrandi. Laufey bauð uppá forrétt og forrdrykk, kantalópur með parmaskinku og forrdrykk sem var hvítvín með sódavatni með frosnum vínberjum og er óhætt að segja það hafi slegið í gegn og hafa þær stöllur ákveðið að þróa þennan drykk til að hafa með á ströndina í sumar. Maturinn var geðveikur og stóðum við á hinu margumrædda blístri af mat loknum.

Eftir að hafa kvatt þau hjónakornin skunduðum við heim á leið og fórum í sameiginlega eldhúsið á fyrstu hæðinni í blokkinni okkar en þangað hafði nágranni okkar, Þórarinn, boðið okkur ásamt Rut og Stebba í póker. Pókerfésin voru tekin fram meðfram því sem við gæddum okkur á úrvali meðlætis sem Þórarinn hafði keypt. Rólegur endir á rólegum degi enda var ég að fara að vakna kl 07.30 til að spila körfu daginn eftir.

Í dag varð ég svo þeirrar lukku aðnjótandi að horfa á Liverpool vinna Newcastle svo að 3 leikir unnust þessa helgina í Pallalandi og íbúarnir eru sælir og glaðir. Í kvöld erum við svo að fara í mat til Sigga og Sophie á Öresundinu.

Áðan pöntuðum við svo flug til Stokkhólms í júlí þar sem við ætlum að kíkja á Herdísi og Stulla sem verða með familíuna í bústað í tvær vikur og við ætlum að kíkja í eina viku. Einnig ætlum við að fara til Prag í september og hitta þar Herdísi og Stulla og Svanhildi og Dedda í fjóra daga. Það er þvílíkur munur að vera hérna úti og geta keypt flug fyrir margfalt minni pening en heima á frónni. Það verður frábært að fara tvisvar út í sumar og mig persónulega hlakkar rosalega til að fara til Prag sem er ein fegursta borg Evrópu. ´

Mig hefur sjaldan hlakkað jafn mikið til sumarsins og núna. Ég er mikið að spá í það fá bara vinnu við ræstingar hjá gaurnum sem ég vinn hjá á lagernum en hann er með ræstingafyrirtæki, sér bara um þennan lager sem aukavinnu. Ég get vel hugsað mér að vinna í ræstingum þar sem maður fær mun hærri tímalaun og vinnur mun færri tíma en t.d. í byggingarbransanum. Nenni heldur ekki að standa í því að vinna eins og vitleysingur 10. sumarið í röð og vera að koma heim þegar dagurinn er búinn, vil frekar njóta sumarsins hérna úti. Þannig að það verður bara fótbolti, frisbee á ströndinni og almenn yndislegheit með Guðnýjunni í sumar.

Hehe eitt hérna, var að rölta framhjá spítalanum hérna á Amager um daginn og þar sá ég soldið sniðugt. Beint á móti innganginum á skurðlækningadeildina, hinu megin við götuna stendur verslunin Ligkistemagasinet. Talandi um að elta viðskiptin. Skemmtilegt fyrir sjúklinga sem bíða eftir að fara í aðgerð að líta út um gluggann og það eina sem þeir sjá er líkkistuverslun!

Nú hefur fuglainflúensan fundist í Danmörku og verður þetta því líklegast í síðasta sinn sem þið heyrið frá mér. Það var frétt um þetta í sjónvarpinu um daginn og var viðtal tekið við mann nokkurn á Suður-Fjóni sem þarf að læsa hobby hænurnar sínar inni vegna hættunnar á H51N veirunni skæðu. Allt gott og blessað með það, en meðan Hans Ole ræðir við fréttamanninn heldur hann einni hænunni þétt að vanga sér og strýkur henni eins og hann sé með Angelinu Jolie breimandi í örmum sér. Hænan endugald atlotin með því að narta á munúðarfullann hátt í höku og varir eigandans. Það sem ég vil sýna fram á hér er að þessi blessaða flensa væri ekki á nokkurn hátt hættuleg fyrir okkur nema út af því að allstaðar, hvort sem það er á Fjóni eða í Kína er alltaf fólk sem sleikir hænurnar sínar. Ef fólk myndi bara sleppa því að renna tungunni gegnum fiðurféð þá væri enginn að smitast af flensunni ógurlegu. Kannski þarf að gera eins þeir gera í Bandaríkjunum og tattóvera á allar hænur heimsins, "Do not lick hen, may contain H51N! If hen gets in contact with eye or mouth, rinse with water, call doctor and get your IQ checked to make sure you are not friggin' mentally retarded."

Að lokum langar mig að biðja alla að bitchslappa George W. ef þið rekist á hann og fara varlega í umferðinni, það eru menn þarna úti á einhjólum (grínlaust) sem svífast einskis. Verið sæl að sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?