Monday, June 26, 2006

Klukkan er sjö, nú verða lesnar fréttir

Heilir og sælir góðir landsmenn, það er Páll Guðbrandsson sem talar í misbeinni útsendingu frá Kaupmannahöfn. Í fréttum er þetta helst:


Ungur maður að nafni Þórsteinn Sigurðsson heimsótti Guðnýju og Pál í vikunni. Heimsóknin var ekki óvænt og hafði hennar verið beðið með óþreyju í þónokkurn tíma. Doddi er systursonur Guðnýjar og kom til Kaupmannahafnar á þriðjudaginn og gisti hjá heimilsfólkinu á Brydes Allé áður en hann hélt til Hróarskeldu til að vera viðstaddur mikla tónlistarhátíð sem þar fer fram einu sinni á ári hverju. Guðný og Palli fylgdu Dodda um miðbæ Kaupmannahafnar og sýndi frænka hans honum nokkrar flottustu búðirnar við mikla hrifningu unga mannsins. Farið var út að borða á víetnömskum veitingastað þar sem var haft eftir Dodda: "Eruð þið viss um að það sé í lagi meða þetta, að þetta séu ekki kettir?" síðan var kíkt í Tívolí og farið í partý í hin nýju húsakynni Cosmógroupforstöðukvenna á Vesterbro. Aðspurð hafði Guðný þetta um málið að segja: "Já hann kom hérna út og við gerðum fullt af skemmtilegum hlutum saman, þetta var bara ógó fínt." Palli kaus að tjá sig ekki um málið að svo stöddu en hefur lofað fjölmiðlum yfirlýsingu innan 48 tíma.

Eins fram kom fyrr í fréttatímanum verður Hróarskelduhátíðin haldin um helgina og í raun alla þessa viku, því tjaldstæðið opnaði á sunnudaginn. Eftir því sem við komumst næst keyptu Palli og Guðný sér tjald á góðu verði hér úti og voru svo heppin að Bragi Brunavörður er einn þeirra sem halda á tjaldsvæði hátíðarinnar á sunnudeginum og bauðst hann til að tjalda þessu nýja tjaldi þeirra ásamt öðru samskonar tjaldi sem hann og Inga höfðu fengið hjá sama heildsala. En í þann mund sem Bragi hóf tjöldun reið ógæfan yfir. Tjöldin sem miðað við verð höfðu virst lítil og ómerkileg reyndust risastór og illviðráðanleg. Sjónarvottar segja að á tjaldsvæði Hróarskeldu hafi tvö sirkustjöld skyndilega skotið niður rótum. Eftir að tjöldun var lokið og sjónarvottar hættu sér að tjöldunum fannst Bragi í öðru tjaldinu en þangað hafði hann komist við illan leik. Var hann hrakinn og nokkuð dregið af honum og dvelur hann nú á tjaldhremmingardeild Hróarskelduspítala og er líðan hans með atvikum. Jan Ole Skedbanegaard (sjá mynd) varð vitni af tjölduninni: "Ég sá hann leggja frá sér tvo poka og allt virtist með felldu en er hann opnaði pokana spruttu út þessu risatjöld og fyrr en varði var hann horfinn í tjaldskýi. Ég var búinn að fylgjast með honum tjalda nokkrum tjöldum fyrr um daginn og hann virtist mjög vanur en þegar um tjöld af þessari stærðargráðu er að ræða geta jafnvel reyndustu tjaldarar orðið undir." Þess má geta að Jan Ole er sjálfur með 20 ára tjöldunarreynslu og segist aldrei hafa séð annað eins. Við verðum með frekari fréttir af líðan Braga þegar þær berast.

Að lokum skulum við huga að veðri en það er góð spá framundan, einhverjir skúrir gætu orðið á fimmtudag en ekki eru miklar líkur á því, á föstudag, laugardag og sunnudag er síðan spá heiðskýru og 20-25 stiga hita.

Fleira er ekki í fréttum að sinni, veriði sæl.



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?