Wednesday, January 18, 2006

Ógeðslega gaman í nýju íbúðinni - myndir


Jæja.......löngu kominn tími á að maður riti hér eins og einn pistil. Var í prófi 9. gott að vera búinn að ljúka því. Prófið var 5 tímar og var haldið í hátíðarsal bókasafnsins á Vor Fruer Plads. Ímyndið ykkur að taka próf í miðri Hallgrímskirkju. 15m. lofthæð og risastórmálverk á öllum veggjum og í loftinu, allt gullhúðað og voðalegt, einhvern 17. aldar bygging. Aðeins öðruvísi en að sitja í einni af litlu stofunum uppí Aðalbyggingu Háskóla Íslands, aðeins meira truflandi. En það gekk nú allt vel og nú er bara að bíða eftir einkunnum og að skólinn byrji aftur í febrúar.

Íbúðin er orðin rosa fín eins og sést á þessum myndum. Guðný er náttúrulega snillingur í að innrétta, á ekki langt að sækja það. Maður trúði varla að hægt væri að gera eitthvað af viti með þetta frímerki en þetta er mjög heimilislegt og náttúrulega draumur að vera komin með eldhús í íbúðina og geta steikt beikon á nærbuxunum, sem er svo sem ekki sérlega þægilegt en maður vill geta gert það. Það komu góðir gestir í heimsókn í gær, svona mini innflutningspartý. Inga, Júlía og Halla komu, Maggi og Guðbjörg sem eru nýflutt hingað og Anna. Við gæddum okkur á snarli og rauðu og hvítu og spjölluðum mikið, þetta var mjög gaman.

Allt er á fullu í að plana Liverpool ferðina og má segja að ég sé orðinn eins og lítill krakki á aðfangadag. Þetta verður geðveikt, þetta er mín Mekka og málið er bara að andskotast til að ákveða að fara og drífa sig, til ykkar þarna úti sem eruð eins og ég búnir að tala um það í 10 ár að skella sér á leik og ekkert gerist. Við erum sem sagt 5 sem förum, ég, Einar, Himmi, Max og Halli mágur Himma. Eins og Biggi í Maus söng um árið: "Mér hlakkar svo tel, mér hlakkar alltaf svo teeeeeel!" 26 febrúar, þá rennur þessi langþráða stund upp.

Fórum til Gulla og Laufeyjar um daginn og þar beið mín óvæntur glaðningur, var ekki Rögnvaldur æskuvinur minn mættur á svæðið. Hann og Biggi (litli bróðir Gunnars Arnar fyrir þá sem þekkja) eru fluttir hingað út og eru í tónlistarlýðháskóla rétt fyrir utan Köben. Við tókum léttann póker og supum á vini fiskimannsins. Mikið gaman að hitta Rögga aftur og verður gaman að endurnýja kynnin við þann mikla snilling.

Jamm tíminn líður hratt á gervihnattaöld, hraðar sérhvern dag, hraðar sérhvert kvöld. Varstu kannski of upptekinn af öllum gulu miðunum........
Maður bíður bara eftir að skólinn hefjist aftur en ég ætla að reyna að finna mér vinnu með skólanum, eitthvað nice job 2-3 í viku. Karfan er farin að rúlla, þ.e.a.s. körfuboltinn. Ekki laust við að ég hafi fengið ælu uppí kok á fyrstu æfingunni, alltaf í góðu formi eftir jólavertíðina. Stefni á að koma mér í fantaform núna eftir áramót, óþolandi að geta ekkert hoppað og vera búinn á því eftir einn leikhluta.

Þýðir ekkert að skrifa pistil svona nývaknaður, mundi ekki eftir neinu af öllum skemmtilegu punktunum sem ég ætlaði að skrifa, rifja það upp og skrifa fljótt aftur, hilsen!



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?